Í lok árs árið 2020 voru 76 apótek starfandi hér á landi auk sjúkrahúsapóteks Landspítalans, samtals 77 apótek. Lyfja hf. og Lyf og heilsa hf. voru stærstu apótekskeðjurnar, Lyfja með 21 apótek og Lyf og heilsa með 27 apótek í rekstri. Tvær aðrar keðjur sem hvor um sig hafa 3 apótek í rekstri eru starfandi í landinu, annars vegar Lyfjaval ehf., hins vegar Lyfsalinn ehf.
Auk apótekanna eru 28 lyfjaútibú á landinu og eru þau öll starfrækt á landsbyggðinni. Alls eru 3 útibú í flokki eitt, 14 útibú í flokki tvö og 11 útibú í flokki þrjú. Langflest útibú eru starfandi á Norðurlandi eða 10 talsins, 7 þeirra á Norðurlandi eystra og 3 á Norðurlandi vestra. Nánari upplýsingar um mismunandi tegundir lyfjaútibúa og skilgreiningar á þeim má finna á vef Lyfjastofnunar.
Á landsbyggðinni eru reknar fjórar lyfsölur í tengslum við rekstur heilsugæsla til að tryggja lyfjadreifingu þar sem langt er í næstu lyfjabúð.
Apótekin
2016 | 2017 | 2018 | 2019 | 2020 | |
Afgreiðslutími á viku | 52,6 | 52,6 | 52,5 | 53,9 | 53,2 |
Fjöldi lyfjafræðinga | 1,4 | 1,6 | 1,5 | 1,5 | 1,6 |
Fjöldi lyfjatækna | 0,5 | 0,6 | 0,5 | 0,4 | 0,4 |
Fjöldi annarra starfsmanna | 2,2 | 2,3 | 2,3 | 2,4 | 2,1 |
Apótekum fjölgað um 15% á fimm árum
Gögn úr árlegri könnun Lyfjastofnunar um mönnun apóteka sýna að ekki er mikil breyting milli ára varðandi fjölda starfsfólks í apóteki. Apótekum hefur þó fjölgað nokkuð síðustu ár samanber tölur úr árskýrslum Lyfjastofnunar eða um 15% á tímabilinu 2016-2020.
Ár | Fjöldi apóteka* | Fjöldi landsmanna 1. janúar |
---|---|---|
2016 | 67 | 332.529 |
2017 | 68 | 338.349 |
2018 | 72 | 348.450 |
2019 | 76 | 356.991 |
2020 | 77 | 364.134 |
Fjölgun apóteka hefur þó að lang stærstum hluta orðið á suðvesturhorni landsins þar sem íbúafjölgun hefur verið hvað mest undanfarin ár.
Ár | Heildarfj. ávísana | Árleg fjölgun í % |
---|---|---|
2016 | 3.483.334 | - |
2017 | 3.669.362 | 5,3% |
2018 | 3.804.888 | 3,7% |
2019 | 3.908.671 | 2,7% |
2020 | 4.043.440 | 3,4% |
Heildarfjöldi ávísana hefur að sama skapi aukist stöðugt milli ára, þó aukningin hafi verið að jafnast út síðastliðin ár. Lyfjaávísunum hefur fjölgað um 16% á tímabilinu 2016-2020.
Munur milli landshluta
Þegar staðan milli landshluta er skoðuð sést að langstærstur hluti afgreiðslustaða er á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ríflega 66% apóteka landsins eru staðsett. Næst kemur Norðurland með 8 apótek og 10 útibú. Austurland sker sig síðan úr í þessu samhengi með einungis tvö apótek, fimm útibú, og eina lyfsölu sem rekin er í tengslum við heilsugæslustöð. Til einföldunar voru sveitarfélögin Norðurland eystra og Norðurland vestra sameinuð í einn landshluta, Norðurland og hið sama var gert fyrir Vesturland og Vestfirði.
Fjöldi | Höfuðb.sv. | Suður-nes | Suður-land | Austur-land | Norður-land | Vestur-land og Vest- firðir |
---|---|---|---|---|---|---|
Fjöldi apóteka | 52 | 5 | 5 | 2 | 8 | 5 |
Fjöldi útibúa | 0 | 3 | 5 | 5 | 10 | 4 |
Fjöldi lyfjasala í t. v. rekstur heilsu-gæslu-stöðva | 0 | 0 | 2 | 1 | 0 | 1 |
Heildar-fjöldi | 52 | 8 | 12 | 8 | 18 | 10 |
Ef fjöldi afgreiðslustaða lyfja miðað við íbúafjölda er skoðaður sést að fjöldi íbúa á hvern afgreiðslustað er langhæstur í Reykjavík eða 4.549 íbúar á hvert apótek. Miðað er við mannfjöldatölur í lok síðasta árs frá Hagstofunni. Að sama skapi eru langfæstir íbúar á Austurlandi á bak við hvern afgreiðslustað enda einungis 2 apótek rekin í sveitarfélaginu en 5 útibú. Þar var fjöldinn 1.356 manns fyrir hvern afgreiðslustað.
*Apótek eru talin með eftirtöldum hætti: starfandi apótek skv. lyfsöluleyfi, ásamt apóteki Landspítalans.
Heimildir:
Niðurstöður árlegra kannanna um mönnun apóteka, framkvæmdar af Lyfjastofnun
Fólksfjöldatölur frá Hagstofu Íslands
Fjöldi lyfjaávísana frá Sjúkratryggingum Íslands