Aðgerðir til að sporna við sýklalyfjaskorti í Evrópu næstkomandi vetur

Gefnar hafa verið út ráðleggingar til að koma í veg fyrir skort á sýklalyfjum næstkomandi vetur. Miðað við fyrirliggjandi gögn ætti framboð sýklalyfja til inntöku að anna eftirspurn.

Framkvæmdastjórn ESB, Forstjórar Lyfjastofnana á EES svæðinu (HMA) og Lyfjastofnun Evrópu (EMA)hafa gefið út ráðleggingar til að sporna við skorti næstkomandi vetur á nauðsynlegum sýklalyfjum sem notuð eru við öndunarfærasýkingum . Þessar ráðleggingar sem hafa verið þróaðar af stýrihópi um lyfjaskort (e. Medicines Shortage Steering Group (MSSG)) eru í takt við áform um að gefa út lista yfir nauðsynlegt lyf í Evrópu.

Framboð sýklalyfja í Evrópu ætti að vera tryggt

Ef þörfin á sýklalyfjum komandi vetur verður í takt við meðalnotkun undanfarinna ára benda þau gögn sem aflað hefur verið til þess að framboð á sýklalyfjum til inntöku muni anna eftirspurn á komandi mánuðum. EMA og HERA (European Health Emergency Preparedness and Response Authority) halda samstarfi sínu við markaðsleyfishafa áfram svo styrkja megi aðgerðir til að auka framboð á sýklalyfjum sem gefin eru í æð.

Nauðsynlegu sýklalyfin sem skilgreind hafa verið eru: amoxicillin, amoxicillin/clavulansýra, penicillin V, azithromycin, clarithromycin, ceftriaxone, cefotaxime og piperacillin-tazobactam.

Mikilvægt er að framleiðendur bregðist snemma við áður en veturinn byrjar svo að hægt sé að auka framleiðsluna ef nauðsyn krefur

Emer Cooke, framkvæmdastjóri EMA

Fyrirbyggjandi ráðleggingar MSSG til að undirbúa veturinn

  • Auka þarf framleiðslu nauðsynlegra sýklalyfja
    Til að koma í veg fyrir skort næstkomandi haust og vetur leggja EMA og HERA til að rætt verði við markaðsleyfishafa um að auka framleiðslu. Snemmtæk íhlutun fyrir veturinn gæti gefið framleiðendum nægan tíma til að tryggja að þeir geti mætt eftirspurninni.
  • Fylgjast með framboði og eftirspurn
    EMA og framkvæmdastjórnin ásamt aðildarríkjum halda áfram að fylgjast með eftirspurn og framboði í samstarfi við fyrirtækin. Þar sem ráðstafanirnar miða að því að tryggja nægt framboð þarf að minna alla hlutaðeigandi á að panta lyf eins og venjulega þar sem ekki ætti að vera ástæða til að hamstra. Hamstur gæti dregið úr framboðið og valdið meiri skorti.
  • Upplýsingar til almennings - skynsamleg notkun
    Sýklalyf ætti að nota á ábyrgan hátt til að tryggja verkun þeirra og gagn og koma í veg fyrir sýklalyfjaónæmi. Hér skipta heilbrigðisstarfsmenn höfuðmáli þar sem aðeins ætti að ávísa sýklalyfjum við bakteríusýkingum. Sýklalyf henta ekki til meðhöndlunar á veirusýkingum á borð við kvef og flensu.

Næstu skref

Niðurstaða leiðtogaráðs Evrópusambandsins í júní 2023 var að EMA og framkvæmdastjórnin myndu halda áfram að fylgjast náið með framboði og eftirspurn sýklalyfja í gegnum HERA sem er í sambandi við markaðsleyfishafa lyfjanna. Gert er ráð fyrir að eftirfylgnin verði út árið til að koma sem fyrst auga á vanda sem gæti verið í uppsiglingu og bregðast við honum. Þann 20. júlí nk. verður haldinn fundur hjá HERA með fulltrúum heilbrigðisráðuneyta aðildarríkjanna, Framkvæmdastjórn ESB og iðnaðinum til að ræða málið nánar og komast að samkomulagi um hvaða skref skuli taka í framhaldinu.

Lyfjastofnun á fulltrúa í HMA og MSSG og heldur áfram að fylgja málinu eftir.

Það er mikilvægt fyrir litla markaði eins og Ísland að vera hluti af svona samstarfi

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar
Síðast uppfært: 18. júlí 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat